Djúpivogur
A A

Rjóður

Rjóður

Rjóður

Eigendur:

Samkvæmt upplýsingum Fasteignamats ríkisins var Rjóður byggt árið 1920. Jón Stefánsson, frá Starmýri, og Marselína Pálsdóttir létu smíða húsið, en þau bjuggu að Hálsi. Smiður var Stefán Sigurðsson frá Hamri.
Að sögn Maríu, dóttur Jóns, flutti fjölskyldan ekki út á Djúpavog frá Hálsi fyrr en um 1924 eða 1925. Þá var húsið ekki tilbúið, þannig að fjölskyldan bjó einn vetur að Hlíðarenda, en flutti í Rjóður 1925 eða 1926.

30. desember 1941 keyptu hjónin Jón Sigurðsson og Jónína Jónsdóttir og hjónin Emil Karlsson og Guðný Aðalheiður Magnúsdóttir húsið af Marselínu Pálsdóttur, ekkju Jóns Stefánssonar, en hann lést í febrúarmánuði sama ár. Jón og Aðalheiður voru systkinabörn, Jón var sonur Sigurðar Brynjólfssonar og Aðalheiður dóttir Hildar Brynjólfsdóttur frá Starmýri.

30. maí 1958 keyptu Jón og Jónína hlut Emils og Aðalheiðar í húsinu og eignuðust þar með allt húsið. Jón lést 19. mars 1989 og bjó Jónína, ekkja hans, áfram í húsinu.

8. mars 1994 keypti Rósa Jónsdóttir húsið af Jónínu, systur sinni, og bjó hún og fjölskylda hennar í því til ársins 2007.

12. nóvember 2007 var húsið selt á uppboði og keypti Sparisjóður Hornafjarðar húsið.

29. september 2009 keyptu hjónin Jón Sigurðsson og Ingveldur Sveinbjörnsdóttir Rjóður af Sparisjóði Hornafjarðar.

Húsið:
Rjóður var byggt úr timbri, einnar hæðar með risi á hlöðnum grunni, sem myndar manngengan kjallara undir hluta hússins. Út- og innveggir voru klæddir með liggjandi panelklæðningu, en milliveggir voru gerðir úr þykkum standandi panelborðum. Milliveggir voru óeinangraðir. Gluggar í húsinu voru krossgluggar. Upphaflegar útidyr voru austast á SA-hlið hússins. Húsið var einangrað með sagi, útveggir og loft, en þakið var óeinangrað. Upphaflega voru útveggir hússins klæddir með tjörupappa.

Með nýjum eigendum, 1941 – 1942, var hæðinni skipt í tvennt, eftir endilöngu. Bjó fjölskylda Emils í SA-hluta hússins og fjölskylda Jóns í NV hlutanum. Herbergjaskipan var höfð eins báðum megin í húsinu. SA-útidyr hússins voru færðar um tvo til þrjá metra til suðurs um leið og byggt var bislag við húsið og gerðar nýjar útdyr á NV hlið hússins með eins bislagi. Niðurgangur í kjallara og uppgangur í ris var úr báðum íbúðunum. Á þessum árum var húsið klætt bárujárni. Á húsinu voru tveir reykháfar, hvor fyrir sína íbúðina.

Á árunum 1960 – 1961 var herbergjaskipan í húsinu breytt, nokkuð í líkingu við það sem hún er í dag. Húsið var allt klætt með asbesti að innan, veggir og loft, sem var síðan málað. Þá var bætt við salernisaðstöðu í húsinu. Skipt var um glugga í húsinu, gömlu krossgluggarnir teknir úr og settir nýir gluggar í þeirra stað, heilir að neðan, með gluggafagi að ofan. Steypt var utanum hlöðnu kjallaraveggina og húsið síðan forskalað. Reykháfar voru fjarlægðir og einn nýr var steyptur í þeirra stað. Bislagið á SA-hlið hússins var fjarlægt og bislagið á NV-hlið var endurbyggt, en það rúmar góða forstofu og geymslu. Bislagið var einangrað með heyi.

Á árunum 1972 – 1973 voru settar lektur utan á húsið, það einangrað með tommu einangrunarplasti og síðan klætt með forlitaðri gulri járnklæðningu. Húsið var einnig klætt með þilplötum að innan.

Á árunum 2010 og 2011 hafa miklar viðhaldsframkvæmdir átt sér stað á húsinu. Allir milliveggir voru fjarlægðir og reistir nýir veggir í þeirra stað. Allir innanverðir útveggir voru klæddir spónaplötum og síðan (eldtefjandi-) gifsplötum þar yfir. Allir milliveggir voru byggðir með trégrind, einangraðir með steinull og síðan klæddir með spóna- og gifsplötum. Allir veggir málaðir. Loft var einangrað með fimm tommu steinullareinangrun og klætt með hvítri eldtefjandi loftaklæðningu. Gólf voru klædd 22 millimetra þykkum gólfplötum, sem voru síðan klæddar eikarparketi í stofu, eldhúsi og herbergjum. Baðherbergi og gólf í forstofu voru klædd flísum. Vatnskynding var fjarlægð og allt rafmagn endurnýjað og settir nýir rafmagnsofnar og hitakútur. Að ytra útliti hefur verið kappkostað að húsið verði sem líkast upprunalegu útliti. Settir voru nýir krossgluggar í húsið. Forlitaða járnklæðningin og forskalningin hafa verið fjarlægð af húsinu. Nýtt vatnsbretti var sett á húsið, sem var ekki áður og settar nýjar fúavarðar lektur og tveggja tommu steinullar¬einangrun og húsið síðan klætt með standandi bárujárnsklæðningu. Nýjar útidyr voru settar á húsið.

Unnið er að því að endurnýja þakið og skipta um járn á því og verður sólpallur byggður við húsið. Settur verður kvistur á húsið, sem snýr í SA-átt. Risið verður einangrað og klætt að innan.

Jón Sigurðsson, Rjóðri tók saman